
Um bæinn Hólabak
Hólabak er staðsett í hjarta Húnaþings á Norðurlandi. Bærinn ber nafn sitt af Vatnsdalshólum sem er kennileiti sem margir þekkja. Hólabaksjörðin er tæpir 700 ha með fjölbreyttu landslagi, sem liggur að Gljúfurá í vestri, að stöðuvatninu Hópi í norðri, að Vatnsdalshólum í austri og að landi bæjarins Uppsala í suðri.
Að Hólabaki er í dag búið með nautgripi og hross, en jafnframt er þar starfrækt fyrirtæki sem framleiðir og selur vefnaðar- og gjafavörur. Á kúabúinu eru um 40 mjólkurkýr ásamt uppeldi, samtals um 80 gripir. Hrossin eru um 50 talsins og eru ræktuð til framleiðslu reiðhrossa til keppni og afþreyingar. Hólabak tilheyrir landssvæði sem gjarnan er nefnt Þing og liggur frá mynni Vatnsdals til sjávar. Ysti bær í Þingi er höfuðbýlið Þingeyrar sem var þingstaður Húnavatnsþings hins forna. Á Þingeyrum var fyrsta klaustur landsins stofnað árið 1133 og í kjölfarið varð Þingeyrastaður eitt mesta menningarsetur landsins og kirkjustaður fram á þennan dag. Í dag tilheyrir Hólabak sveitarfélaginu Húnabyggð. |
Þessir tveir, hér að ofan, búa enn með kýr að Hólabaki.
|
Á Hólabaki búa þrjár kynslóðir. Björn Magnússon og Aðalheiður Ingvarsdóttir keyptu jörðina 1972 og hafa byggt upp og hlúð að síðan. Þau eru hrossaræktendur og hafa hestar úr þeirra ræktun, sem dæmin sanna, verið í fremstu röð á heimsmælikvarða. Ingvar Björnsson og Elín Aradóttir hafa búið á Hólabaki ásamt börnum sínum þremur, Aðalheiði, Ara og Elínu, síðan 2013. Þau reka kúabúið í dag, sem og aðra starfssemi á bænum.
Talsvert er til af ljósmyndum frá Hólabaki frá fyrri hluta síðustu aldar. Ljósmynd af Jónasi Björnssyni, hefur birst nokkuð víða (sjá umfjöllun í ritinu Úr torfbæjum inn í tækniöld, ritstj. Magnús Kristinsson, útg. 2013). Umrædd mynd var tekin í júlí 1936 af Bruno Schweizer og sýnir bónda, ásamt hundi sínum, við þau heyskapartök sem þá tíðkuðust. Hér að neðan má sjá þessa mynd. Enn neðar, til samanburðar, gefur að líta ljósmynd sem tekin var sumarið 2018 á sama túnbletti. Þar stilla þau sér upp Ingvar bóndi og yndælistíkin Úlla. Tækninni reiðir fram en markmiðin eru þau sömu, nú sem fyrr. |